Lög Félags tölvunarfræðinga

Síðast breytt á aðalfundi 28. maí 2019


1. gr.

Félagið heitir Félag tölvunarfræðinga og hefur heimili og varnarþing í Reykjavík


2. gr.

Markmið félagsins er:

 1. Að gæta sameiginlegra hagsmuna félagsmanna.
 2. Að vera í forsvari fyrir félagsmenn gagnvart innlendum og erlendum aðilum á sviðum tengdum störfum félagsmanna.
 3. Að efla þekkingu félagsmanna.
 4. Að efla tengsl og kynni félagsmanna.

3. gr.

Félagið vinnur að markmiði sínu  m.a. með því:

 1. Að halda fundi um  áhugamál félagsmanna.
 2. Að standa fyrir námskeiðum og erindaflutningi.
 3. Að hafa tengsl við samtök háskólamenntaðra manna hérlendis og  erlendis.
 4. Að kynna tölvunarfræðina og tölvunarfræðinga  fyrir utanaðkomandi aðilum.

4. gr.

Þeir sem ljúka B.S. prófi eða æðri gráðu í tölvunarfræðum, þar á meðal tölvunarstærðfræði, frá íslenskum háskóla geta orðið félagsmenn. Jafnframt geta aðrir sem lokið hafa sambærilegu prófi úr viðurkenndum háskóla, að mati stjórnar orðið félagsmenn.

Mat þetta skal byggt á reglum sem samþykktar hafa verið af félagsmönnum  á aðalfundi. Félagsmaður er undanþeginn greiðslu félagsgjalda fyrsta árið sem hann er í félaginu. Félagsmenn skulu greiða félagsgjald skv. ákvörðun aðalfundar  hverju sinni. Félagsgjald skal greitt fyrir september ár hvert. Þeir félagsmenn sem búsettir eru erlendis vegna náms eða starfa skulu greiða hálft félagsgjald. Félagsmenn eldri en 65 ára og heiðursfélagar skv. 6. gr. skulu undanþegnir greiðslu félagsgjalds.

Hjón eða sambúðarfólk sem bæði eru skráð í félagið skulu borga hálft félagsgjald hvort.


5. gr.

Félagsmaður skal hlíta siðareglum félagsins. Siðareglur félagsins eru hluti af lögum þess.  Siðareglur Félags tölvunarfræðinga:

 1. Félagar skulu starfa heiðarlega.
 2. Félagar skulu starfa af faglegri  ábyrgð.
 3. Félagi sem tekur að sér verk fyrir verkkaupa er óheimilt að taka við  þóknun eða fríðindum frá  þriðja aðila í sambandi við verkið,  nema samþykki verkkaupa komi til.
 4. Félagar skulu ekki nota neinar trúnaðarupplýsingar frá vinnuveitanda  eða skjólstæðingi, núverandi eða  fyrrverandi án þess að fá leyfi til  þess.
 5. Félagar ættu að auka faglega færni sína sem mest á hverjum  tíma.
 6. Félagar eru hvattir til að  auka orðstír félagsins.
 7. Félagar eru hvattir til að  miðla faglegri reynslu á vettvangi  félagsins.

6. gr.

Félagsfundur getur að tillögu stjórnar kosið heiðursfélaga, menn sem leyst hafa af hendi mikilsverð störf á sviði tölvunarfræði. Til að samþykkja tillöguna þarf 2/3 hluta greiddra atkvæða.


7. gr.

Greiði félagsmaður ekki félagsgjald sitt í tvö ár er stjórn félagsins heimilt að skoða slíkt sem úrsögn úr félaginu, en áður en til þess  kemur skal stjórnin senda viðkomandi áskorun um greiðslu ógreiddra félagsgjalda. Óski félagsmaður þess að segja sig úr félaginu skal hann gera það skriflega til stjórnar.

Brjóti félagsmaður ítrekað eða verulega gegn lögum félagsins er stjórn þess heimilt að víkja manni úr félaginu. Stjórn félagsins skal jafnan senda félagsmanni sem gerst hefur brotlegur áminningu fyrst. Félagsmanni er heimilt að skjóta ákvörðun stjórnar til félagsfundar.


8. gr.

Félagsfundur hefur æðsta vald í málefnum félagsins. Aðalfund skal halda fyrir lok maímánaðar árlega.  Aðalfund og félagsfundi skal boða skriflega með 14 daga fyrirvara hið minnsta. Skulu lög félagsins send félagsmönnum með aðalfundarboði.  Félagsfundur er lögmætur sé löglega til hans boðað og ræður fjöldi atkvæða úrslitum mála, nema annars sé getið í lögum þessum.  Atkvæðisrétt hafa skuldlausir félagsmenn.

Stjórnin skal halda  félagsfund ef tíundi hluti félagsmanna æskja þess skriflega. Skal hann haldinn innan eins mánaðar. Lagabreytingar skulu kynntar félagsmönnum með aðalfundarboði og einungis vera teknar fyrir á aðalfundi.


9. gr.

Þessi mál skulu tekin fyrir á aðalfundi í eftirfarandi röð:

 1. Skýrsla um störf félagsins á liðnu starfsári.
 2. Reikningsskil.
 3. Lagabreytingar.
 4. Kosning stjórnar og varamanna.
 5. Kosning skoðunarmanna.
 6. Ákvörðun félagsgjalda.
 7. Önnur mál.

10. gr.

Um kosningu til trúnaðarstarfa fyrir félagið skulu gilda eftirfarandi reglur:

 1. Kjósa skal leynilegri skriflegri kosningu.
 2. Embættisgengi hafa allir skuldlausir félagsmenn.
 3. Kjörtímabil er til næsta aðalfundar.
 4. Kosning skal vera bundin.
 5. Þegar kosið er um fleiri en eitt embætti í einu skal fjöldi nafna á kjörseðli ekki vera umfram fjölda embætta sem  kosið er um. Þeir sem flest atkvæði fá teljast réttkjörnir.

11. gr.

Stjórn félagsins skal skipuð fimm  mönnum. Kjósa skal formann sérstaklega, en  aðra sameiginlega. Tvo varamenn skal kjósa sameiginlega.  Stjórnin skiptir með sér verkum, en störfin  eru: Gjaldkeri, ritari, formaður kjaranefndar og menntari.  Ritari gegnir störfum formanns í fjarveru  hans.

Formaður boðar til stjórnarfundar. Skylt er að halda stjórnarfundi ef stjórnarmaður gerir um það kröfu.  Gerðir stjórnarinnar skulu bókaðar.


12. gr.

Á aðalfundi skal kjósa tvo skoðunarmenn. Skoðunarmenn skulu fara yfir reikninga  félagsins og staðreyna hvort ársreikningur sé gerður í samræmi við góða bókhaldsvenju. Við þessa vinnu sína skulu skoðunarmenn kanna bókhaldsgögn félagsins og aðra þætti er varða rekstur þess og  stöðu. Þá skulu skoðunarmenn kanna hvort  reikningar séu í samræmi við  ákvarðanir félagsfunda og stjórnar.  Skoðunarmenn skulu árita ársreikninga  félagsins um að endurskoðun hafi farið  fram.


13. gr.

Stjórn félagsins ræður málefnum félagsins með þeim takmörkum  sem lög þessi setja. Hún tekur nánari ákvarðanir um starfsemi félagsins og ber  ábyrgð á fjárreiðum þess.  Hún skuldbindur félagið gagnvart öðrum aðilum og er undirskrift formanns og gjaldkera nægileg til þess.


14. gr.

Innan félagsins skal starfa kjaranefnd sem hefur það hlutverk að safna upplýsingum um launa- og starfskjör félagsmanna. Nefndarmenn skulu vera tveir, skipaðir af stjórn félagsins. Formaður nefndarinnar skal vera einn stjórnarmanna.


15. gr.

Innan félagsins skal starfa siðanefnd sem hefur það hlutverk að kveða upp úrskurði um  kærur sem berast vegna meintra brota á siðareglum  félagsins. Siðanefnd hefur einnig heimild til að taka upp mál sem varða meint brot á siðareglum félagsins. Ritari félagsins er sjálfkrafa formaður nefndarinnar. Stjórn félagsins skipar 2 aðra aðila í nefndina.

Komi upp sú staða að nefndarmaður í siðanefnd tengist meintu siðabroti skal hann skilyrðislaust víkja og annar skipaður í hans stað.


16. gr.

Stjórn félagsins er heimilt að stofna til annarra nefnda en að ofan greinir og jafnframt að fela fastanefndum önnur verkefni en um getur í 14. og 15. gr.


17. gr.

Reikningsár félagsins er frá 1. apríl til 31. mars.


18. gr.

Til þess að lagabreyting nái fram að ganga þarf 2/3 hluta greiddra atkvæða.


19. gr.

Tillaga til slita á félaginu þarf samþykki 3/4 hluta greiddra atkvæða á aðalfundi. Ákveði aðalfundur að slíta félaginu skulu allar eigur þess, ef einhverjar eru, renna til tölvunarfræðiskorar HÍ.


20. gr.

Samþykktar lagabreytingar öðlist þegar gildi.


Vinsamlega sendið athugasemdir til ft@ft.is