Þann 9.Október síðastliðinn kom hún Berglind Ósk Bergsdóttir til okkar í hádeginu og hélt kynningu á loddaralíðan (e. Imposter Experience) og kulnun í starfi (e. Burnout), en Berglind hefur einmitt haldið nokkra fyrirlestra og vinnustofur um þetta viðfangsefni.
Berglind Ósk Bergsdóttir er menntuð sem Tölvunarfræðingur, útskrifuð frá Háskóla Íslands. Hún er hokin af reynslu og starfaði til langs tíma við hugbúnaðar þróun hjá Gogoyoko og Plain Vanilla en er nú starfandi hjá Kolibri.
Eins og Berglind lýsir því þá er “Loddaralíðan (e. impostor experience) það ástand þegar einstaklingur metur ekki afrek sín að verðleikum og er haldinn viðvarandi hræðslu um að það komist upp um sig sem loddara (sem er að blekkja aðra um hæfileika sína). Þessir einstaklingar taka ekki mark á utanaðkomandi merkjum um árangur og finnst hann ekki verðskuldaður. Þessi líðan er mjög algeng, en um 70% af fólki hefur upplifað hana á einhverjum tímapunkti. Þegar manneskju tekst ekki að komast yfir þessa líðan getur það leitt til streitu, kvíða, kulnunar í starfi og þunglyndis.
Til að sigrast á loddaralíðan er mikilvægt fyrir fólk að leita innávið og læra að leggja mat á hæfileika sína og afrek á raunsæjan hátt.”
Ágætis mæting var á viðburðinn og sköpuðust nokkuð góðar umræður um viðfangsefnið.