Samlokufundur – Haskell og Hackathon sigurvegari

Kæru félagar,
Miðvikudaginn 19.10, verður Samlokufundur í hádeginu.  Fyrirvarinn er stuttur en innihaldið er gott.

Fallaforritun og Haskell – Baldur Blöndal (Iceland_Jack): Hvenær og hversvegna fallaforritun er málið
Travel Hackathon – Dagný Lára Guðmundsdóttir (sigurvegari).  Dagný og félagar segja okkur frá keppninni og sinni lausn

Atburðurinn hefur verið settur inn á fésbókina og biður stjórn náðarsamlegast að félagar skrái áhuga sinn þar.

Tillaga að lagabreytingum

Stjórn FT hafa borist eftirfarandi tillögur að lagabreytingum. Kosið verður um þessar tillögur á aðalfundinum.

4. gr.

Þeir sem ljúka B.S. prófi eða æðri gráðu í tölvunarfræðum frá íslenskum háskóla verða sjálfkrafa félagsmenn við útskrift.

Verði:

Þeir sem ljúka B.S. prófi eða æðri gráðu í tölvunarfræðum frá íslenskum háskóla geta orðið félagsmenn.

7.gr.

Greiði félagsmaður ekki félagsgjald sitt í tvö ár er stjórn félagsins heimilt að skoða slíkt sem úrsögn úr félaginu, en áður en til þess kemur skal stjórnin senda viðkomandi áskorun um greiðslu ógreiddra félagsgjalda. Greiði nýr félagsmaður ekki félagsgjald sitt í fyrsta sinn er heimilt að líta á það sem úrsögn.

málsgreinin:

Greiði nýr félagsmaður ekki félagsgjald sitt í fyrsta sinn er heimilt að líta á það sem úrsögn.

falli brott.

8.gr.

Í stað setningarinnar:

 Lagabreytingar skulu einungis vera teknar fyrir á aðalfundi.

Komi setningin:

Lagabreytingar skulu kynntar félagsmönnum með aðalfundarboði og einungis vera teknar fyrir á aðalfundi.

Aðalfundur 2016

Aðalfundur Félags tölvunarfræðinga verður haldinn miðvikudaginn 25. maí klukkan 17:00.
Fundurinn verður haldinn í sal Verkfræðingafélags Íslands, Engjateigi 9, 105 Reykjavík.

Dagskrá verður samkvæmt lögum félagsins:

 1. Skýrsla um störf félagsins á liðnu starfsári
 2. Reikningsskil
 3. Lagabreytingar
 4. Kosning stjórnar og varamanna
 5. Kosning skoðunarmanna
 6. Ákvörðun félagsgjalda
 7. Önnur mál
Lög félagsins er að finna á vef FT: http://ft.is/um-felag-tolvunarfraedinga/log/
Farið verður yfir nýjustu kjarakönnun félagsins strax eftir liðinn “Önnur mál”.

Að venju verður boðið upp á léttar veitingar.

Stærsta ofurtölva Íslandssögunnar – Samlokufundur

Núna á miðvikudaginn 11. maí verður samlokufundur þar sem við fáum að heyra um stærstu ofurtölvu landsins. Um er að ræða langöflugustu tölvu sem sett hefur verið upp hérlendis og mun hún geta framkvæmt 700.000 milljarða reikniaðgerða á sekúndu. Tölvan vegur um 14 tonn. Vigfús hjá Veðurstofunni og Þorvaldur ráðgjafi hjá Tescon taka á móti okkur. Þorvaldur hefur yfir 28 ára reynslu sem verkfræðingur og stjórnandi hjá fyrirtækjum á sviði upplýsingatækni og orkuframleiðslu. Hann hefur nýlega lokið að verkstýra uppsetningu á stærstu ofurtölvu Íslandssögunnar sem hann mun nú segja okkur nánar frá.

Mæting er hjá Veðurstofu Íslands við Bústaðarveg 7 (gamla Landsvirkjun / Landsnet húsið) kl 12-13. Samlokur og gos í boði. Mikilvægt að þið meldið mætingu á Facebook eða með tölvupósti.

ofurtölva

Styrkja fyrirtæki opinn hugbúnað?

Árni Sigurðsson er innblásinn af Django Under the hood ráðstefnunni sem haldin var í Amsterdam núna í nóvember og hann ætlar að ræða við okkur um opinn hugbúnað. Í hádeginu næsta mánudag þá verður Árni með stutta framsögu en svo er opið á umræður þar sem rætt verður m.a. hvernig fyrirtæki styrkja opinn hugbúnað, hvernig notum við opinn hugbúnað, þörf á fjármagni fyrir open source verkefni – og allt annað sem viðkemur opnum hugbúnaði.

Allir áhugasamir um open source ættu að láta sjá sig. Samlokur og gos í boði.

Er haldið í sal Verkfræðingafélags Íslands Engjateigi 9, mánudaginn 30. nóvember kl 12-13.  Vinsamlega meldið komu með pósti á stjórn FT eða á facebook.

Jón von Tetzchner svarar spurningum

Jón von Tetzchner ætlar að hitta okkur í samloku Q&A í hádeginu á miðvikudag.  Jón er tölvunarfræðingur en hann er fyrrum framkvæmdastjóri og einn af stofnendum Opera Software.  Ásamt því að stofna frumkvöðlasetur á Eiðistorgi þá stofnaði hann Vivaldi Technologies og er því aftur kominn í þróun á vafra.

Jón ætlar að svara spurningum frá tölvunarfræðingum – en samlokufundurinn verður með svokölluðu Q&A sniði.  Þið komið með spurningar!  Þetta er frábært tækifæri til að spyrja reynslumikinn aðila spjörunum úr og þá sérstaklega allt sem tengist vöfrum, internetið og nýsköpum!

Vinsamlega skráið ykkur á Facebook síðu FT eða með tölvupósti á ft-stjorn@ft.is,  svo hægt sé að áætla innkaup!

Aðalfundur 2015

Aðalfundur Félags tölvunarfræðinga verður haldinn fimmtudaginn 7. maí klukkan 17:00.
Fundurinn verður haldinn í sal Verkfræðingafélags Íslands, Engjateigi 9, 105 Reykjavík.

Dagskrá verður samkvæmt lögum félagsins:

 1. Skýrsla um störf félagsins á liðnu starfsári
 2. Reikningsskil
 3. Lagabreytingar
 4. Kosning stjórnar og varamanna
 5. Kosning skoðunarmanna
 6. Ákvörðun félagsgjalda
 7. Önnur mál
Lög félagsins er að finna hér á vef FT: http://ft.is/um-felag-tolvunarfraedinga/log/
Farið verður yfir nýjustu kjarakönnun félagsins strax eftir liðinn „Önnur mál“.

Að venju verður boðið upp á léttar veitingar.

Heimsókn til RB

Næstkomandi fimmtudag ætlar Reiknistofa bankanna – RB – að bjóða FT í heimsókn. RB er tæknifyrirtæki sem hefur starfað í meira en 40 ár og eins og hjá öllum tæknifyrirtækjum þá eru margar áskoranir.  Frábært tækifæri til að hitta aðra tölvunarfræðinga og fá að kynnast þessu metnaðarfulla fyrirtæki.

Vinsamlega meldið ykkur á ft-stjorn@ft.is eða á Facebook síðu FT.

Staður: RB,  Höfðatorg, Katrínartúni 2.

Stund: Fimmtudagur 5. mars, kl 17-19.

Stjórn FT

BIG-data hjá NextCode

Samlokufyrirlestur verður í hádeginu, klukkan 12 mánudaginn 9. febrúar. Þá ætlar Hákon Guðbjartsson frá NextCode að segja okkur frá því starfi sem þar er í gangi. Nánari lýsingu má lesa hér að neðan.

Að þessu sinni verður fyrirlesturinn haldinn í stofu M101 í Háskólanum í Reykjavík. Nemendum á 2. og 3. ári í tölvunarfræði verður einnig boðið að koma til að kynnast starfi FT og hlusta á þennan spennandi fyrirlestur.

Vinsamlega skráið ykkur með því að senda póst á ft-stjorn@ft.is eða á Facebook síðu FT.  Mætið sundvíslega!

Stjórn FT

 == Fyrirlesturinn ==
Á undanförnum árum hefur kostnaður og vinna við raðgreiningu á erfðamengi manna lækkað gífurlega.  Þannig er það nú orðið praktískt að framkvæma slíkar mælingar fyrir klínísk greiningarpróf sem og að nota slíkar erfðamælingar í stórum rannsóknum með fjölda þátttakenda.  En til þess að slíkt sé mögulegt þurfa að vera til staðar upplýsingakerfi sem leyfa mönnum að vinna úr þessum mælingum á hraðvirkan og þægilegan hátt.  Fyrirtækið NextCode vinnur nú að markaðssetningu og frekari þróun á tölvukerfum, upphaflega þróuðum hjá Íslenskri erfðagreiningu, fyrir spítala og lyfjafyrirtæki sem vilja nýta sér þessa öflugu mælitækni.

Segja má að hvergi eigi orðið „BIG-data“ betur við en um erfðaraðgreiningarsviðið.  Eitt af því sem margir þeir, sem þróa hugbúnað fyrir þessi gögn rekast fljótlega á, er að hefðbundnir venslaðir gagnagrunnar (RDBMS) henta ekki nægilega vel.  Þetta hefur leitt til þess að þeir sem vinna í lífupplýsingatækni hafa þróað fjöldann allan af skráarsniðum og sérhæfðum hugbúnaðartólum. Þannig fer mikil vinna fyrir forritara í að samræma og læra á hin ýmsu ólíku tól auk þess sem það kostar oft aukinn reiknitíma og gagnaflutning.   Stöðunni í lífupplýsingatækni svipar því á margan hátt því ástandi sem ríkti í hugbúnaðargeiranum öllum í byrjun áttunda áratugarins, fyrir daga venslaðra gagnagrunna.

Hugbúnaðarkerfi NextCode byggja á gagnagrunnstækni sem þróuð var til að auðvelda úrvinnslu á erfðaupplýsingum fengnum með hinni nýju raðgreiningartækni.  Í þessum fyrirlestri verður fjallað um GORdb kerfið, sem byggir á svokölluðum „genomic ordered relational architecture“ og notar nýstárlegt fyrirspurnarmál sem tvinnar saman eiginleika SQL og skeljaskipana í Linux.  Fjallað verður um hönnunarforsendur, kosti og galla kerfisins, því hvernig það kemur til með að nýta sér teygni  tölvuskýja, sem og áætlaða samþættingu við Hadoop tæknistakkinn.  Ef tími leyfir verða sýnd einföld dæmi um notkun kerfisins.

== Fyrirlesarinn ==
Dr. Hákon Guðbjartsson var framkvæmdastjóri upplýsingatæknisviðs hjá Íslenskri erfðagreiningu frá stofnun fyrirtækisins árið 1996 allt þar til hann tók við starfi framkvæmdastjóra upplýsingatæknisviðs hjá NextCode Health fyrir skemmstu. Hákon lauk verkfræðiprófi í rafmagnsverkfræði við Háskóla Íslands árið 1990. Framhaldsnám stundaði hann við Massachusetts Institute of Technology (MIT) og lauk þaðan meistara og doktorsprófi í rafmangsverkfræði og tölvunarfræði, árið 1992 annars vegar og 1996 hins vegar. Að loknu námi stundaði hann rannsóknir í segulómunarmyndtækni við Brighams Women’s Hospital og Harvard Medical School í Boston, þar til hann tók til starfa hjá ÍE.​​

Windows snjallforrit/apps og samnýting kóða fyrir iOS og Android

Samlokufyrirlestur verður í hádeginu næsta þriðjudag, 14. október.  Þá ætlar Björn Ingi Björnsson frá Spektra að leiða okkur í sannleikann hvernig það er að skrifa snjallforrit fyrir Windows sem hægt er að nýta í bæði Windows símum og á Windows desktop.  Jafnframt ætlar Björn að segja okkur frá hvernig við getum notað Xamarin svo samnýta megi C# kóða til að gera snjallforrit/apps fyrir Windows, iOS og Android.  Verið viðbúin að sjá kóða :o)

Samlokufyrirlesturinn verður haldinn í sal Verkfræðingafélagsins að Engjateigi 9.  Samlokur og gos í boði.  Vinsamlega skráið ykkur með því að senda póst á ft-stjorn@ft.is eða á Facebook.

Hvenær: Þriðjudagurinn 14. okt, kl 12-13.
Hvar: Engjateigi 9, 105 Reykjavík